Um Pilt

Vefurinn piltur.is er í eigu samnefnds félags, Piltur ehf. sem er í meirihluta eigu Þorgils Óttars Mathiesen en hann vinnur jafnframt afkomuspár og verðmat fyrirtækja sem er birt á vefnum.

Þorgils Óttar er með cand oecon próf í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands, meistaragráðu frá sama skóla í reikningsskilum  og endurskoðun og hlaut löggildingu sem endurskoðandi í ársbyrjun 2014.

Hann hefur starfað í fjármála-, trygginga- og fasteignageiranum en frá ársbyrjun 2010 til ársloka 2024 starfaði hann hjá KPMG á Íslandi.

Starfsreglur

Starfsreglur þessar eru settar með hliðsjón af framseldri reglugerð Framkvæmdastjórnar ESB 2016/958 sem innleidd var með reglum Seðlabanka Íslands um aðgerðir gegn markaðssvikum nr. 977/2024.

Piltur ehf. er eigandi þessarar vefsíðu en Þorgils Óttar Mathiesen, hér eftir nefndur greinandi, vinnur afkomuspár og verðmat einstakra fyrirtækja á vefsíðunni.

Piltur ehf., greinandi eða aðilar nákomnir honum, skv. skilgreiningu 26. tl. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og Evrópuráðsins (ESB) 596/2014 um markaðssvik, eru ekki í stjórnum, nefndum eða öðrum störfum eða vinna verkefni fyrir þau fyrirtæki sem fjallað er um á vefsíðu þessari og afkomuspár og verðmat snúa að. Framangreindir aðilar skulu vera óháðir fyrirtækjum þessum.

Greinandi mun miðla upplýsingum um öll tengsl og aðstæður sem eðlilegt er að ætla að dragi úr hlutlægni greinanda, þ.m.t. um hagsmuni eða hagsmunaárekstra.

Greinandi og aðilar sem eru honum nákomnir geta átt hluti í umræddum fyrirtækjum en eiga ekki viðskipti með fjármálagerninga í þeim frá þeim tíma að ársreikningur er birtur og þar til afkomuspá og verðmat byggt á honum hefur verið birt á vefsíðu þessari.

Ef hrein gnótt- eða skortstaða greinanda eða aðila sem eru honum nákomnir, fer umfram 0,5% viðmiðunarmörk í útgefnu heildarhlutafé útgefandans munu upplýsingar um slíkt verða sérstaklega birtar á vefsíðu þessari í samræmi við 6. gr. framseldrar reglugerðar Framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/958. Upplýst verður sérstaklega um hvort hreina staðan sé gnótt- eða skortstaða.

Við gerð afkomuspár og verðmats sem birtist á vefsíðu þessari er notast við opinberar upplýsingar um viðkomandi fyrirtæki. Greinandi skal eftir fremsta megni kanna að opinberar upplýsingar sem birtar eru á þessari vefsíðu séu áreiðanlegar.

Öll gögn tengd afkomuspá og verðmati einstakra fyrirtækja eru vistuð á lokuðu skjalavistunarrými sem greinandi einn hefur aðgang að. Afkomuspá og verðmat einstakra fyrirtækja er sett á vef þennan og birt þegar Kauphöll er lokuð.