Tilgangur

Með piltur.is er verið að auðvelda fjárfestum að gera sér grein fyrir virði einstakra fyrirtækja sem skráð eru á hlutabréfamarkaði á Íslandi.

11. maí 2025

Nú hafa verðmatsgreiningar tuttugu og tveggja skráðra fyrirtækja í kauphöll á Íslandi, byggðar á ársuppgjörum fyrir árið 2024, verið birtar á vefnum piltur.is. Viðtökur hafa verið góðar, takk fyrir það!

Fleiri verðmatsgreiningar verða ekki birtar byggðar á ársuppgjörum 2024 en í byrjun árs 2026 verða núverandi greiningar uppfærðar m.t.t. ársreikninga ársins 2025 og jafnvel fleiri greiningar birtar.

Ekki er útilokað að eitthvað annað efni verði birt á piltur.is á næstu mánuðum sem verður þá tilkynnt á Facebook síðunni Piltur sem hægt er að fylgja og var sett upp í þeim tilgangi að uppplýsa um nýtt efni á vefnum.

Þorgils Óttar Mathiesen

Eldri skilaboð

Um verðmat

Verðmat einstakra fyrirtækja byggir á tíu ára afkomuspá, unninni á nafngrunni og núvirðingu hennar. Afkoma umfram/undir ávöxtunarkröfu er núvirt og bætt við eigið fé í uppphafi spátímabils sem er þá virði viðkomandi fyrirtækis (e. residual income valuation).

Afkomuspáin tekur mið af reynslutölum úr ársreikningum fyrri ára, leiðsögn stjórnenda ef hún er fyrir hendi í ársreikningum og öðru kynningarefni og almennum rekstrarhorfum að mati greinanda. Ekki er gert ráð fyrir verulegum breytingum á rekstri viðkomandi fyrirtækis á spátímabilinu. Sú forsenda er jafnframt gefin að stöðugleiki og jafnvægi ríki í efnahagsmálum landsins.

Við núvirðingu á afkomu er notuð 10% nafnarðsemiskrafa til eigins fjár í öllum tilfellum, horft er til áhættulausra vaxta þ.e. ríkisbréfa til lengri tíma með álagi. Metinni áhættu fjárfesta í einstökum fyrirtækjum að öðru leyti er þá mætt með afslætti á núvirtu verði þeirra.

Afkomuspá og verðmat sem birt er á vefsíðu þessari er almenns eðlis og felur á engan hátt í sér ráðgjöf til fjárfestis um kaup eða sölu tiltekinna fjármálagerninga, sjá fyrirvara.